Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kærleikur

Gleðileg jól kæru þið. Datt í hug að setjast við tölvuna og skrifa um kærleika. Ekki það að ég viti meira um hann en hver annar. Hann er bara svo frábær. Veit ekki um neinn annan sjóð sem vex við það eitt að veita úr honum. Hann semsagt verður stærri og meiri við það eitt að gefa vaxtalaust úr þessum frábæra sjóði "kærleikssjóðnum" og allir geta verið með og gefa! Það var bankað hjá mér kl 4 á aðfangadag. fyrir utan stóðu þrjú börn nágranna okkar, þeim langaði að gefa mér og konunni minni jólakort og lítin pakka. Ég sagðist ekki vera með neinn pakka fyrir þau, jú það var allt í lagi, þeim bara langaði að gleðja okkur. Vá ef þetta er ekki kærleikur til náungans, hvað þá, þau voru 4 - 7 og 10 ára sirka. Oft finnst okkur að ef gjafir eru ekki stórar eða ekkert er tilefnið, hljóti þetta að vera hællærislegt. Samt finnst flestum gaman að gera gott. Við erum kannski föst í eigin hugsunum og kunnum ekki að segja við næsta mann. hey þú, mér finnst nú bara vænt um þig. Vil bara nota þetta tækifæri til að óska öllum sem ég þekki og líka þeim sem ég þekki ekki, Gleðileg jól og mín stærsta ósk er að allir finni þessa vellíðan sem fylgir því að gefa kærleika og kunna að taka við honum.Vonandi verður næsta ár og öll okkar framtíð sveipuð þessum frábæra sjóði sem öllum stendur opin.


Jólin 2013

Kominn annar dagur jóla, ótrúlegt hvað tíminn fer hratt yfir! En, ósköp eru þetta notalegir dagar,,,hjá mér! Ég get nefnilega bara talað fyrir mig. Var að hugsa í nótt kl.2 þegar ég heyrði í krökkum vera með læti út í þessum kulda, af hverju eru þau ekki heima í faðmi fjölskyldunnar. Sjálfsagt margar ástæður en vonandi finna flestir fyrir helgi jólanna, án áfengis og vímuefna, sérstaklega ef börn eru annars vegar. Þeir sem fóru í kirkju og hlustuðu á fagnaðarerindi jólanna líður örugglega vel í hjartanu, það er svo mikill erill flesta daga að við sjáum ekki hvað skiptir máli. Hvað skiptir þá svona miklu máli að við þurfum að staldra við? Jú,okkur þarf að líða vel með það sem við erum að gera, aðeins þannig getum við gefið öðrum af heilum hug. Nú er ég ekki að tala um gjafir og peninga, heldur það sem allir þurfa, hlýju, hvatningu, huggunarorð, bros. Þetta er ekki flókið og öllum líður vel að gefa þetta, en gerum við nóg, lætur okkur ekki betur að vera ópersónuleg og heimtufrek, ég veit það ekki, hver svari sjálfum sér! Við ný áramót er gott að setja sér markmið fyrir næsta ár. Löngu búin að sjá að það eru litlu markmiðin sem yfirleit nást, ekki það að stór markmið séu síðri. ég tek þessi litlu, brosið og þann pakka, lofa ekki að mér takist það en maður verður að reyna. Byrja á hverjum morgni með því að brosa í spegilinn. Einhverstaðar verður maður að byrja, ekki satt! Vonandi hafa allir notið jólanna, óska þér gleðilegra jóla og birtu og gleði á nýju ári.

Trúmál og siðferði

Var að hugsa, trúmál og siðferði, hvað er það eiginlega í hugum fólks. Veit auðvitað ekkert um það, svo mart sem maður veit ekkert um. Trúi því hinsvegar að flest fólk sé gott fólk. Fór í messu í Skálholti í dag, hvítasunnudag, ótrúlega uppbyggilegt og skemmtilegt. Tveir einstaklingar fermdust þarna. Tók sérstaklega eftir mörgu sem var sagt við mig, þegar ég var fermdur, og var komið í þoku. Mæli með að fólk drífi sig þó ekki sé verið að ferma hjá því sjálfu. Eitt af því sem ég tók eftir hjá prestinum var þessi von um að viðkomandi mæti öðlast sýn á hið góða í öllu og öllum, að fylgja línu fyrirgefinnar og upphefja sjálfan sig ekki yfir aðra. Mér leið vel undir þessum orðum. Hinsvegar veit ég að þessi leið er of sjaldan farin, allir vita allt miklu betur en næsti maður, við svörum fullum hálsi, hvaða vitleysa, mín skoðun er sú rétta. Hvernig væri nú ef hver og einn liti svo á að allir aðrir gætu verið með betri eða réttlátari lausn, væri ekki þess virði að hlusta. Var rétt áðan að lesa grein eftir þýðanda hjá Stöð Tvö. Veit að vísu að þetta er hennar hlið, en hef enga ástæðu til að rengja hana. Hún fær krabba og á meðan hún er í veikindum sínum er hún rekin,57 ára gömul eftir 25 ára starf, með 20 daga fyrirvara. Löglegt, sennilega. Siðlaust, já, samkvæmt öllum samskiptum manna er þetta ókristilegt og níðingslegt. Ekki mikill kristilegur kærleikur þar. Í framhaldi af því datt mér í hug hvort ekki væru margir sem vildu kaupa þrotabúið, þegar allir hafa sagt upp áskriftinni, og félagð fer í þrot. trúi því að engin muni missa vinnuna, fá bara nýjan og betri eiganda að fyrirtækinu. Væntanlega kæmu áskrifendur aftur! En, ég er bjartsýnismaður og trúi að þessi ólánsmiðill sjái að sér og lagi óréttlætið!

Ekki meiri Icesave...

Eftir tvo daga frá dómsuppkvaðningu er þetta að verða hjáróma. Svo mikið er talað og skrifað um þetta mál. En, auðvitað eigum við að vera keik og ánægð. Ég og margir stóðum í kulda og trekki til að koma þessu máli á þann stað sem það endaði. Svona getur samtakamáttur áorkað miklu. Við getum lært ýmislegt af þessu ef við viljum. Að öllu jöfnu er ég þeirrar skoðunar að betra er að semja um hluti, versus að nota hnefaréttinn. Hitt er, ekki verður við það unað að annar samningsaðilinn noti fantabrögð. Þá er tími til að henda góðum vilja út um gluggann og nota þau löglegu vopn sem gefast. Hjá okkur var það einfaldlega þjóðin sem sagði "nei" við borgum ekki og gáfum fingur. ESA fór þá í mál í umboði EU og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sem betur fer sáu dómarar réttlætið, þrátt fyrir að ég reikna með þrístingi frá þessum aðilum. Annars er það íhugunarefni að þegar við deilum við breta, höfum við oftast betur. Það er semsagt ekki endilega sá sem er mest ógnandi,með flottustu vopnin og miklu stærst á margan hátt, sem vinnur. Spurningin er að vera heiðarlegur en ákveðin, nota ekki hrottaskap, heldur réttlæti að vopni. Það er örugglega ekkert gaman fyrir breta og Hollendinga að tapa sífellt fyrir okkur(Frown), og en síður er skemmtilegt fyrir venjulegt fólk sem tapaði sparifé sínu við hrun bankanna. Menn hafa þó bent á að tilboðið sem bankinn kom með var of góður til að vera sannur. Um þetta var skrifað, bæði í bretlandi og Hollandi fyrir hrun bankanna. Allavega, nú erum við á þeim stað að getað tekið risaskref framá við. Strax eftir næstu kosningar kemst loks á langþráð bjartsýni í landan. Ekki seinna en vænna. Sjálfsagt verða mörg mál sem menn deila um, en vonandi verður það innríkismál, má sem við getum sjálf leitt til líkta.Að lokum langar mig að segja um breta, mun ætíð nota lítin staf hér eftir í þeirra nafni!


Kosningaár eða ár valfrelssis!

Nú um stundir fara að koma þessi kosningaórói í flokka og menn. Allir hafa rétt fyrir sér og allir hafa bestu lausnina. Svona erum við bara. Haldið það sé munur! Nokkrar umræður hafa verið um hvort halda skuli samningunum eða segja þeim upp. Mín skoðun er að við eigum að standa við samninga sem við höfum gert, að sjálfsögðu. Þeir sem ekki stóðu við þessa samninga eru aðallega stjórnvöld, og stjórnkerfið allt. Hagfræðingur seðlabankans skammast út í þessa samninga vegna þess að þeir valda aukinni verðbólgu. Hvað með vaxtahækkanir, skattahækkanir, hækkanir á lyfjum, hækkanir á komugjöldum, og svo má lengi telja. Já og hvað með mörg hundruð þúsunda hækkanir hjá mönnum eins og þessum hagfræðingi og hans yfirmönnum. Veit ekki betur en Seðlabankastjóri hafi farið í mál við bankann til að lofta sínum launum upp. Svo er það hin hliðin á þessum pening, "verðtryggingin" Þessi heilaga kýr sem ekki má líta í áttina til hvað þá meira, ef einhverjum dettur í hug sanngirni. Allar þessar hækkanir hins opinbera koma sem aukabónus fyrir bankana, á kostnað lánþega. Man ekki betur en í umræðunni á sínum tíma um verðtryggingu hafi menn verið að tala um vextina, ekki höfuðstólinn, að öðru leiti en því að hluti vaxta áttu að leggjast við höfuðstól. Þetta varð svo túlkað sem almenn verðtrygging fyrir alla upphæðina auk vaxtanna! Í tilefni kosninga skora ég á alla sem geta skrifað, að senda inn fyrirspurn til frambjóðenda hvaða augum þeir líta þetta, og hvað þeir ætla að gera. Þess meiri umræða sem verður um verðtrygginguna, aukast líkur á réttlátri niðurstöðu. Ekki gleyma að það sem fólk átti í sínum eignum, fluttist til bankana vegna verðtryggingarinnar, með hjálp ríkisstjórnarinnar. Minni á að ef engin gerir neitt, breytist ekkert. Ef við notum þetta tækifæri til breytinga, á jákvæðum nótum, tekst okkur að hífa okkur útúr vandræðum og koma niður standandi. Það hlýtur að vera gott markmið.

Jóla-naflaskoðun

Jæja, eru ekki jólin kominn aftur, og nýbúinn. Við erum hér en þrátt fyrir hrakspár um endalok alls. Það má vel vera að þessu ljúki einhver tíma, en hver hefur svo sem sloppið lifandi frá þessu lífi. Við fæðumst,lifum og deyjum. Spurningin er þarna á milli. En, þar sem engin endalok komu, er þá ekki upplagt að líta framtíðina sem annað tækifæri. Tækifæri til að gera góða hluti fyrir okkur sjálf og aðra.  allt sem við upplifum er ævintýri, njótum. Hætta að saka aðra um að vera ekki á sömu skoðun og við sjálf, líta með opnum hug, allt sem fyrir augu ber. finna sanngjarna og heiðarlega leið út úr þrasi og eigin egói. Við heyrum stundum af því að óheiðarlegir kónar ræna hjálparsamtök og þá sem eiga að njóta aðstoðar, ekki getum við bara hætt að hjálpa þess vegna, við finnum leið framhjá þessum köppum og komum aðstoðinni á réttan stað. Sé ekki að það sé munur á þessu og daglegu lífi á Íslandi, þar sem allt, allt of margir hafa ekki í sig og á. Þeir sem tóku matinn frá því fólki ætti að halda sig fjarri eða bjóða fram aðstoð. "Þeir vita sem eiga hér sök" En eins og ég sagði er þetta tími naflaskoðunar hjá hverjum og einum. Undirritaður er ekkert undanskilinn frekar en aðrir. Það er mín einlæga ósk að allir upplifi helgi jólanna, hver á sinn hátt, og munum að það er ekki gjöfin sem skipti máli heldur hugurinn á bak við gjöfina. Gleðileg jól kæru vinir.


Að hafa skoðun, eða ekki skoðun!

Í þessari ömurlegu pólitísku sjálfhverfu, ég er bestur, ástandi, er erfitt að koma stefnum áfram. Allir vita best. Ekki bætir úr skák að þeir þingmenn, núverandi, virðast láta sér á sama standa þó margir hafi skipt um pólitíska skoðun á miðju kjörtímabili. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt spurningu eins og, munt þú starfa eftir stefnu flokksins út kjörtímabilið, ef þú nærð kjöri? eða muntu segja af þér þingmensku ef þér finnst flokkurinn víkja af leyð, nú eða fara bara í annan flokk sem bíður betur!!!! Mín skoðun er, að þó við stillum upp með prófkjöri, erum við að kjósa flokkinn í þingkosningum, ekki menn. Við aðhillumst einhverja stefnu sem við treystum á að þingmennirnir framfylgdi. Ekki nóg með það, þingmenn verða að standa fastir fyrir þegar kemur að hagsmunum landsins. þó ég sé flokksbundinn Sjálfstæðismaður, er ekki þar með sagt að ég geti ekki haft skoðun á öllu sem viðkemur flokkinn og alla þingmenn. Hef til dæmis á tæru að ég kýs engan í prófkjöri nema að vel ígrunduðu máli. Svo er önnur hlið á þing og flokkstarfi. Mér virðist að einhverjum finnist allt í lagi að segja hvað sem er um hinn flokkinn og hina þingmennina, þá sem er ekki í mínum flokki. Menn fullyrða hitt og þetta, hver étur upp eftir öðrum og útkoman er stórisannleikur. Held að nú væri góður tími til að staldra við og hugsa um hvað kemur flestum til góða, ekki bara ég og mitt. Út frá minni skoðun ættum við t.d.að hætta snarleg öllum viðræðum við EU, Barnaskapur að halda að Íslendingar njóti þar sanmælis. miklu betra fyrir okkur öll að standa utan við. Menn geta spurt sig núna, þar sem loðnan er farin inn í Grænlenska lögsugu, stendur EU ekki við bakið á okkur til að koma í veg fyrir að Grænlendingar veiði ekki loðnuna OKKAR. Þetta er fráleitt ef menn vilja sjá það. Samt ætla þeir að beita okkur ofbeldi af sömu ástæðu. Svo er það hin væntanlega nýja stjórnarskrá. Get ekki betur séð en hún sé svipuð og að setja 10 manns í herbergi og 7 stóla, og bjóða mönnum að setjast. Það verða alltaf einhverjir sem fá ekki sæti. Þannig á stjórnarskrá ekki að vera. Þar á að vera pláss fyrir alla. örugg sæti sem öllum er tryggð án málaferla og gjaldþrota. Ef þetta er ekki tryggt verða sífeldar erjur um  sætinn!

Jól og jólaminningar, hvert stefnum við.

Kæru bloggunnendur og aðrir lesendur. Jólin eru á næsta leyti. Hátíð ljóssins. Já,hátíð ljóssins, en um hvað er verið að tala. Hvað ljós. Kannski stjörnuna sem vísaði vitringunum veginn. Nei, það er verið að tala um ljós heimsins, frelsarann sjálfan. Hans vegna höldum við jól, gefum gjafir, skreytum jóltré og gerum vel í mat, hittumst og ræðum saman, og gefum börnunum sérstaka athygli. Allt þetta finnst okkur sjálfsagt og eðlilegt. Þá vaknar sú spurning, af hverju vilja sumir útrýma öllu sem kristið er úr skólum,a.m.k. í Reykjavík. Kristindómur hefur verið vagga siðmentar í gegnum aldirnar. Að vísu hafa slæðst þangað óværur eins og dæmin sanna, en það breytir ekki grunninum að kristnum gildum.Þau standa óhögguð og upplýsandi, fögur og lýsandi fyrir hvern þann sem vill tileinka sér þau. Í minni minningu er kirkjan helgur staður, maður gekk hljóður um þetta hús trúarinnar og var ekki með háreisti og mas. Þetta var góð upplifun sem snart hjartað. Þessa tilfinningu vil ég gjarnan að fleiri upplifðu, en hvernig má það vera ef krökkum er haldið frá kirkjunni með boðum og bönnum. Í tækni nútímans, þar sem allt gengur út á hraða og tímaleysi foreldra, væri nú ekki gott að staldra við og hugsa sem svo, hvernig get ég haldið í við tíman en jafnframt sinnt sálinni í barninu mínu. Jú, látum ekki fáeina,háværa einstaklinga  ráða mun meira en þeir ættu, komum þeim skilaboðum áleiðis að við viljum fá kristnifræðslu inn í skólana aftur. Setjum okkur markmið fyrir næsta ár að fara með bænirnar með börnunum á hverju kvöldi. Er ekki í einum einasta vafa að þetta verða góðir einstaklingar. Þegar einhver segir, ég á mína barnatrú, er einmitt verið að tala um þessar stundir á kvöldin, þegar foreldri og barni áttu bænastund saman. Eigið öll gleðileg jól og farsælt ár sem í vændum er.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband